Í London með Hraun!

Það var nú aldeilis kominn tími á að við skelltum okkur til London, það var nú ekki verra að hafa ástæðu eins og þá að hljómsveitin Hraun spilaði í keppni "The next big thing 2007" hjá BBC. Þeir lentu eins og margir vita í topp 5 og var flogið út til London til að taka þátt í lokahlutanum þar sem þeir spiluðu fyrir framan myndavélar og dómara sunnudaginn 9. des. Við fórum með út sem sérlegir aðdáendur og stuðningsfólk, ég (Nóni) Bryndís og Kristinn, einnig voru þarna Villi bróðir, Dagbjört dóttir Svabba og Helga Sif sem er vinkona hans og kærastan hans Lofts bassaleikara. 

Þarna spiluðu 5 mjög frambærilegar hljómsveitir og var mjög gaman að hlusta á Hraun, Mayu McCallum og Yunasi. Vrelo og Jeremy voru aðeins minna í uppáhaldi hjá mér.

Í London var æðislega gaman og forvitnilegt að koma loks til, upplifa bresku íhaldssemina og alla þá miklu menningu sem London býr yfir verandi ein af stórborgum heimsins. Þegar ég segi menning er ég ekki að tala um einhverja listviðburði eða sýningar, nei ég er að tala um eigilega merkingu þess orðs eins og þá sem menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, hefur lagt til að menning sé skilgreind sem:  (fengið hjá wikipedia)  „... samsafn þeirra trúarlegu, efnislegu, vitrænu og tilfinningalegu þátta sem einkenna hvert samfélag eða samfélagshóp. Listir og bókmenntir teljast til menningar, en einnig lífsstíll, sambúðarform, mannleg gildi, hefðir og skoðanir.“

Þetta ferðalag var í alla staði hið skemmtilegasta, við flugum út á föstudag og hittum Villa bróður sem gisti á sama hóteli og við og eyddi með okkur helginni, fórum í bæinn á laugardag og skoðuðum heilan helling, aftur í bæinn á sunnudag þangað til að keppnin hófst um nónbil þá fórum við í stúdíóið hjá BBC í Maida Vale sem er sögufrægt að því er þeir segja þarna í London. Mánudagurinn fór svo í heimferðina og var það ótrúleg ánægja hjá okkur Bryndísi og Kristni að hitta aftur Davíð og Stellu sem höfðu beðið okkar hér heima með ömmu Siffu annars vegar og Auði og Hemma hins vegar, Vala kom einnig við sögu og kunnum við þeim hinar bestu þakkir fyrir. Vonandi eignast þau börn einn daginn (nema mammaLoL) sem verða jafn yndisleg og okkar og þá getum við launað þeim greiðsemina. Það var lygilega erfitt að skilja þessa engla eftir svona langan tíma, alvega 3 dagaCrying.  Nú hef ég farið til Parísar, New York og London, nú þarf ég bara að komast á Kópasker og Trékyllisvík.

Nú líður að jólum og fólk er svona aðeins að undirbúa sig undir þau, sérstaklega yngra fólkið hér á bænum, það er alveg á hreinu hvenær fyrsti jólasveinninn kemur í bæinn (það er sko í kvöld). Það er búið að baka smákökur og skreyta smá og nú þarf bara að fara að skrifa jólakort og svoleiðis og þá kemst maður í jólaskapið og getur farið að kaupa gjafir og dreyma um fallega pakkaWink og góðan mat.  Þetta er þó fyrst og fremst tími barnanna en ég sjálfur er orðinn miklu næmari fyrir jólunum og kemst í meira jólaskap en áður eftir að ég fékk öll þessi börn, ég einhvern veginn upplifi þetta í gegn um þau. Gleðin er svo hrein, tilhlökkunin er ekta líka og ákefðin sem einu sinni ólgaði inni í manni sjálfum er allt í einu komin líka.

Jæja, kannski eru ekkert margir að lesa þetta þvaður þannig að ég eyði ekkert meiri tíma í það núna.

 

Jólakveðja, Nóni og fjölskylda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband